Íbúar við Hvannasund í Færeyjum hafa verið varaðir við að vera niðri í fjöru eftir óútskýranlega flóðbylgju sem gekk þar yfir í gær.
Það varð mikil ólga í sjónum og svo reis hann þrjá metra yfir varnargarð bæjarins. Þegar hann streymdi út aftur sást niður á hafsbotninn þar sem fiskar sprikluðu. Engan sakaði og engar skemmdir urðu á mannvirkjum.
"Við vitum ekkert hvað gerðist," segir Lis Mortensen, landfræðingur hjá Orku- og jarðfræðistofnun Færeyja. Hún segir að yfirvöld hafi varað fólk við að fara niður í fjöru.
Hvannasund er á Færeyjunum norðanverðum. Enginn jarðskjálfti var á undan þessu fyrirbæri.
Lis Mortensen segir að hugsanlega hafi fallið risaskriða úr fjalls- eða klettahlíð niður í sjó.
Enginn hafi séð merki um slíkt, en það geti verið vegna þess að skriðan hafi orðið undir sjávarmáli.