Pervez Musharraf, forseti Pakistans, útilokar að Sameinuðu þjóðunum verði falið að stýra rannsókn á morðinu á stjórnarandstöðuleiðtoganum Benazir Bhutto í síðasta mánuði.
Þetta sagði forsetinn í viðtali við franska dagblaðið Le Figaro sem birt var í morgun. Hann sagði pakistanskar stofnanir fullfærar um að rannsaka morðið.
Auk þess hefði verið óskað aðstoðar bresku lögreglunnar. Niðurstöðurnar yrðu birtar fyrir þingkosningar átjánda febrúar næstkomandi.
Eiginmaður Bhutto og sonur þeirra - nýir leiðtogar Þjóðarflokks hennar - hafa báðir krafist þess að alþjóðleg rannsókn fari fram á morðinu.