Ingi Þór Steinþórsson verður næsti þjálfari meistaraflokka Snæfells í Iceland Express deildunum. Ingi Þór skrifaði áðan undir samning á blaðamannafundi í Stykkishólmi og mun þjálfa bæði karla- og kvennalið félagsins.
Ingi Þór hefur þjálfað hjá KR allan sinn þjálfaraferil og gerði meistaraflokk karla að Íslandsmeisturum á sínu fyrsta ári 2000. Hann hefur alls stjórnað KR í 138 leikjum í úrvalsdeild og liðið vann 86 þeirra þar af 14 af 28 leikjum í úrslitakeppni.
Ingi Þór hefur ekki þjálfað meistaraflokk síðan að hann hætti með KR-liði vorið 2004. Hann var aðstoðarþjálfari liðsins á nýloknu tímabili þegar KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.
Ingi Þór hefur unnið ellefu Íslandsmeistaratitla og tíu bikarmeistaratitla sem þjálfari í yngri flokkum þar af hefur hann gert KR-lið að Íslandsmeisturum undanfarin fimm ár.
Þjálfaraferill Inga Þórs í úrvalsdeild karla:
1999-2000 KR 14-8 (5.sæti í deild) + 8-3 í úk. (Íslandsmeistari)
2000-01 KR 15-7 (4.) + 2-3 í úk. (undanúrslit)
2001-02 KR 17-5 (3.) + 3-4 í úk. (undanúrslit)
2002-03 KR 15-7 (4.) + 0-2 í úk. (8 liða úrslit)
2003-04 KR 11-11 (7.) + 1-2 í úk. (8 liða úrslit)