Innlent

Bjarni Ben bendir á fáránleika málsins

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, varar við því að matsákvæði séu notuð í málum ráðherranna fyrrverandi sem meirihluti þingmannanefndar leggur til að verði ákærðir fyrir landsdómi. Þingið sé komið í algerar ógöngur verði farið að tillögunum.

Í grein í Morgunblaðinu í gær bendir Bjarni á að ef sækja eigi málin á grundvelli mats, megi að sama skapi sækja ráðherra í sitjandi ríkisstjórn til saka fyrir viðbragðaleysi þegar hæstaréttardómurinn í gengislánamálinu féll í sumar. Þá hafi nefnd um fjármálalegan stöðugleika komið saman og metið það svo að vissar líkur væru á að bankakerfið myndi hrynja að nýju, sagði Bjarni í greininni.

Engu að síður hafi ríkisstjórnin ekki látið vinna greiningu á þeirri fjárhagslegu áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir.

Í tillögu þingmannanefndarinnar er ráðherrunum fjórum gefið að sök að hafa ekki látið vinna slíka greiningu í aðdraganda hruns bankanna. Segir Bjarni málin sambærileg í öllum mikilvægum atriðum.

Í samtali við Fréttablaðið kvaðst Bjarni vera að benda á fáránleika málsins. „Ef byggt er á mats-kenndum atriðum er auðvelt að heimfæra þau upp á verk þessarar ríkisstjórnar. Ég er talsmaður þess að menn fari ekki inn á þessa braut. Hins vegar kunna að koma upp mál þar sem þingið verður að grípa inn í. Það eru mál þar sem ráðherra mátti vera ljóst að hann væri að fremja brot. Það á ekki við í þessum málum.“- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×