Skoðun

101 Öræfasveit

Íbúar Öræfasveitar skrá sig á spjöld sögunnar í dag þegar þeir taka formlega í notkun nýtt háhraða ljósleiðaranet. Netið lögðu þeir inn í hvert hús í sveitinni á eigin kostnað. Þar til nú hafa Öræfingar þurft að sætta sig við afar lélega netþjónustu og víða í sveitinni náðist eingöngu ein sjónvarpsstöð. Með tilkomu ljósleiðarans standa Öræfingar hins vegar jafnfætis og raunar framar mörgum íbúum höfuðborgarsvæðisins.

Hvergi á landinu er í dag hraðari nettenging í boði en í þessari fallegu sveit milli sanda. Ljósleiðarann geta Öræfingar notað til að ná útsendingum 70 sjónvarpsstöðva eða jafnvel til að leigja sér kvikmynd með fjarstýringuna eina að vopni.

Drifkraftur Öræfinga er aðdáunarverður. Verkefnið var umfangsmikið og kostnaður á hvert heimili í sveitinni nemur um hálfri milljón króna. Fjarskiptafélag Öræfinga var stofnað í þeim tilgangi að kippa sveitinni í einu vetvangi úr tæknilegri fornöld og inn í nútímann. Það hefur nú tekist og starfsfólk Vodafone er stolt af því, að Öræfingar skuli hafa valið okkur sem sinn þjónustuaðila á hinu nýja fjarskiptaneti í Öræfasveit.

Örugg og góð fjarskipti, ekki síst öflug nettenging, er ein lykilforsenda þess að dreifðari byggðir landsins megi dafna. Þau auka lífsgæði fólks, gera því auðveldara að stunda fjarnám, sækja sér afþreyingu og stunda nútímaleg samskipti við umheiminn. Þau bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja, auka gæði skólastarfs og ættu í raun að teljast til sjálfsagðra réttinda íbúa um land allt.

Öræfingar hafa sýnt að þeir eru framsýnir ekki síður en stórhuga. Þeir hefðu getað farið ódýrari leið og fengið með því hefðbundna netþjónustu. Sú leið hefði kostað minna en að sama skapi hefði hún dugað skemur og haft takmarkaðari nýtingarmöguleika.

Með lagningu ljósleiðara inn á hvert heimili í sveitinni hafa íbúar stigið stórt skref inn í framtíðina og sýnt í verki að ekkert fær stöðvað góða hugmynd ef fólk vinnur saman. Til hamingju með daginn Öræfingar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×