Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra neitar að hafa haldið upplýsingum frá Björgvin G. Sigurðssyni þáverandi viðskiptaráðherra um bága stöðu bankanna í aðdraganda bankahrunsins. Jafnframt var aldrei rætt um bankaáhlaup á Landsbankann í Bretlandi á fundi sem hún sat með formanni bankaráðs Seðlabankans í forsætisráðuneytinu í apríl 2008.
Þetta kemur fram í bréfi sem Ingibjörg Sólrún sendi Alþingismönnum í gær vegna þingsályktunartillögu þeirra Magnúsar Orra Schram og Oddnýjar Harðardótur, fulltrúa Samfylkingar í þingmannanefnd. Þau hafa lagt til að Ingibjörg verði dregin fyrir Landsdóm í stað Björgvins.
Í bréfinu fjallar hún um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið og ákúrur á hendur sér í forsætisráðherratíð Geirs H. Haarde.
Ingibjörg Sólrún segir í bréfinu ekki hafa haldið upplýsingum frá samflokkfélögum sínum í ríkisstjórninni í aðdraganda bankahrunsins. Þvert á móti hafi hún miðlað upplýsingum af fundum með Seðlabankanum til ráðherra Samfylkingarinnar og trúnaðarmanna á ýmsum fundum. - jab
