Það er hvert einasta sæti setið í Þjóðmenningarhúsinu í dag, nú þegar sjötti dagur aðalmeðferðarinnar í Landsdómsmálinu er að hefjast. Hingað er mætt fólk hvaðanæva úr samfélaginu.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, mun bera vitni fyrst samkvæmt dagskrá. Hjörleifur Sveinbjörnsson, eiginmaður hennar, er mættur til þess að fylgjast með skýrslutöku yfir henni. Einnig nokkrir samherjar hennar úr pólitík. Þeirra á meðal eru Lúðvík Bergvinsson, fyrrverandi alþingismaður, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi þingmaður og borgarstjóri, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi alþingismaður.
Einnig eru nokkrir komnir til þess að sýna sakborningnum, Geir Haarde, stuðning. Þeirra á meðal eru Guðjón Þórðarson, mágur hans, Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, og Gréta Ingþórsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Geirs.

