Skoðun

Gengisfelling andans

Methúsalem Þórisson skrifar
Það er útbreidd skoðun að þau vandamál sem hrjá fólk verði leyst með tilteknu skipulagi, löggjöf, stjórnmálaflokki, ríkisstjórn, leiðtoga eða trúarbrögðum.

Frá sjónarmiði okkar í Húmanistaflokknum endurspeglar þjóðfélagið það sem er innra með okkur. Á meðan við sigrumst ekki á óreiðunni, þjáningunni og ofbeldinu innra með okkur, þá munu yfirborðslegar breytingar á þjóðfélagi og hagkerfi, jafnvel þótt nauðsynlegar séu og komi einhverju góðu til leiðar, ekki leiða til einingar heldur skapa meiri óreiðu, þjáningu og ofbeldi í heiminum. Þess vegna leggjum við áherslu á það sem býr innra með okkur en bindum ekki vonir einungis við það sem gerist hið ytra, á félagslegu sviði. Raunveruleg þjóðfélagsbreyting getur aðeins gerst með innri breytingu hjá manneskjunni.

Þess vegna viljum við þjóðfélag sem tryggir sérhverri mannveru – aðeins vegna þess að hún hefur fæðst í þennan heim – mannsæmandi lífsafkomu í samræmi við þarfir hennar, næringu, heilbrigðisþjónustu og menntun sem gerir huga hans frjálsan og eflir hans bestu eiginleika.

Mannkynið býr nú við skilyrði sem gera því kleift að koma af stað breytingum sem koma því á annað stig. Við erum tæknilega fær um að útrýma hungri og ójöfnuði og það jafnvel á nokkrum vikum. Þetta mun þó aðeins takast með því að við breytum forgangsröð okkar, að við setjum mannveruna sem æðsta gildi og helsta viðfangsefni, í stað þess að setja peninga, völd, stjórnmálaflokka, trúarbrögð eða einhvern guð ofar okkur. Við leggjum til altæka breytingu, jafnt hið innra sem hið ytra, þ.e.a.s. persónulega og félagslega breytingu samhliða.

Við getum ekki eftirlátið einhverjum öðrum öflum að skapa mannverunni hamingju og frið, því við erum sjálf mannverur hvert og eitt okkar. Því hvar gæti lausnin verið annars staðar en hjá okkur?




Skoðun

Sjá meira


×