Kona sem var á leið með
Icelandair
til
London
í morgun til að vera viðstödd skírn barnabarn síns fékk ekki að fljúga með félaginu vegna óveðursins í gær. Það kom ekki í ljós fyrr en hún reyndi að skrá sig inn í flugið á Keflavíkurflugvelli í morgun en hún fékk engar skýringar á breytingunum.
„Það er verið að fara að skíra barnabarnið mitt,“ segir Anna Kristín Kristinsdóttir sem átti bókað flug til
London
með
Icelandair
um klukkan níu í morgun. „Ég er með veisluföngin fyrir skírnarveisluna í töskunni minni,“ segir hún en sérstök íslensk messa var klukkan tvö í dag þar sem barnið var skírt.
Var ekki látin vita
Anna segist hafa reynt að skrá sig inn í flugið í sjálfsafgreiðsluvél sem er á flugvellinum en það hafi ekki gengið. Þá hafi hún beðið í röð þar við innskráningarborðin og þegar kom að henni var henni tilkynnt að hún fengi ekki sæti í vélinni.
„Ég spurði hvernig stæði á því og fékk þau svör að það væri út af veðrinu í gær,“ segir hún. Þjónustufulltrúinn gaf henni kost á að fá flug klukkan eitt eftir hádegi á morgun. Hún segist ekki hafa fengið neinar skýringar á því af hverju tafir á flugi í gær hefðu áhrif á hennar bókun.
„Ég er búin að eiga bókað far síðan 18. nóvember,“ segir Anna sem furðar sig á vinnubrögðum
Icelandair
. Hún segist hafa farið fram á endurgreiðslu á miðanum en fengið þau svör að beiðni um slíkt tæki fjórar til fimm vikur í afgreiðslu.
Mannleg mistök segir Icelandair
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi
Icelandair
, segir félagið harma mistökin. „Það voru gerð mistök í tölvuvinnslu sem veldur því að fólk sem átti bókað var sett á biðlista á sínu flugi,“ segir hann. „En þetta eru mistök sem við hörmum og við reynum að bæta fyrir.“
Guðjón segir að mistökin hafi haft áhrif á fáa, um tíu manns. Hann segir að það verði unnið úr því með hverjum og einum hvernig félagið bætir fyrir mistökin. „Þetta eru mannleg mistök við tölvuvinnslu,“ segir
upplýsingafulltrúinn
.
Samkvæmt upplýsingum frá Önnu hefur ekki verið haft samband við hana eftir að hún fór af Keflavíkurflugvelli í dag.
