Körfubolti

LeBron riftir samningnum við Cleveland

Tómas Þór Þórðarson skrifar
LeBron James er hættur að taka á sig launalækkanir.
LeBron James er hættur að taka á sig launalækkanir. vísir/getty
LeBron James ætlar ekki að þiggja þær 21,6 milljónir dollara sem Cleveland Cavaliers á að borga honum fyrir næsta tímabil heldur mun hann rifta samningnum sínum við félagið.

Þetta er þó ekki gert í illu heldur má LeBron rifta rétt eins og Kevon Love ætlar að gera, en ESPN segist hafa heimildir fyrir þessu.

Við þessu var búist og verður þetta í þriðja skiptið á sex árum sem LeBron verður frjáls á markaðnum sem opnar 1. júlí. Að þessu sinni er þó öruggt að hann mun semja aftur við Cleveland, samkvæmt heimildum ESPN.

Hann ætlar ekki einu sinni að hitta önnur lið, stefna hans er að vinna NBA-meistaratitilinn með Cleveland Cavaliers. Hann þurfti að sætta sig við tap með liðinu í lokaúrslitunum í ár gegn Golden State Warriors.

Launaþakið í NBA-deildinni er að hækka og hefur LeBron gefið það áður út að hann ætlar að fá eins mikið borgað og hann getur það sem eftir lifir ferilsins. Hann tók á sig launalækkun hjá Miami til að vinna titla.

Tölfræðideild ESPN greindi frá því að Twitter í gærkvöldi að LeBron getur skrifað undir fimm ára samning í sumar sem tryggir honum 126 milljónir dollara (16,6 milljarða króna), eða gert það sama á næsta ári og fengið þá 167 milljóna dollara samning (22 milljarða króna).

Sumarið 2017 getur LeBron, sem verður þá 32 ára gamall, gert fimm ára samning við Cleveland sem myndi tryggja honum 203 milljónir dollara eða 26,8 milljarða króna í laun.

Rich Paul, umboðsmaður LeBron James, ætlar fyrst að ganga frá samningsmálum Tristans Thompsons sem spilaði vel fyrir Cleveland í úrslitakeppninni, en Cleveland er þó sagt ætla hafa samband við James og láta vita að hann mun fá allt það sem hann biður um.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×