Á Facebook-síðu sinni viðrar þingmaðurinn þá hugmynd að bankinn, sem er nær alfarið í ríkiseigu, festi kaup á húsnæði við Urðarhvarf 8 í Kópavogi í stað þess að ráðast í fyrirhugaðar framkvæmdir við Austurhöfn í Reykjavík.
Margir hafa lýst sig andsnúna þeim fyrirætlunum sem áætlað er að muni kosta skattgreiðendur um 8 milljarða króna. Þeirra á meðal eru sjónvarpsmaðurinn Ómar Ragnarsson og stjórnarþingmennirnir Elín Hirst og Vigdís Hauksdóttir.
„Landsbankinn virðist því geta sparað um 5 milljarða með því að kaupa þetta,“ segir Frosti og bætir við að með kaupum á húsinu myndi hagræðingin, sem stjórnendur Landsbankans hafa sagt ástæðu framkvæmdanna, nást að fullu. „Öll starfsemi myndi rúmast á einum stað. Landsbankinn gæti svo selt lóðina fínu við Austurhöfn með góðum hagnaði,” segir Frosti á Facebook-síðu sinni.
Margir hafa lýst stuðningi við hugmyndir Frosta sem betur má glöggva sig á hér að neðan.