Bændur í Álftaveri óttast að brúna yfir Skálm á Mýrdalssandi geti tekið af. Áin hefur margfaldast eftir að kvíslar úr öðrum ám tóku að renna í hana.
Áin Skálm við Álftaver hefur þar til í sumar þótt tiltölulega meinlítil bergvatnsá. En núna er hún gjörbreytt, búin að tvö- til þrefaldast að stærð og orðin leirbrúnt jökulfljót.

Skýringanna er þó hvorki að leita til Skaftárhlaups né vatnavaxta síðustu daga heldur til breytinga við rætur Mýrdalsjökuls. Kvíslar undan jöklinum sem áður runnu í Múlakvísl og Leirá renna nú um farveg Skálmar. Bændum í Álftaveri lýst ekki á blikuna.
„Hún brýtur óhemjulega mikið land, bæði hérna ofan vegar og eins er hún að hlaða undir sig hérna neðan vegar líka sem veldur því að það hækkar á þeim varnargörðum sem þó eru fyrir og verja byggðina,“ segir Jóhannes Gissurarson, bóndi á Herjólfsstöðum, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

Mestar áhyggjur eru þó af sjálfri Skálmarbrú, sem er á hringveginum, en það er eina samgönguleiðin um héraðið.
„Það óneitanlega veldur áhyggjum ef brúna tekur af,“ segir Jóhannes.
Raunar má þegar sjá dæmi um skemmdir því við eystri brúarsporðinn hefur áin rofið úr fyllingu í vatnavöxtum síðustu daga.

Múlakvísl er raunar fræg fyrir það að ryðja af sér brúm, síðast fyrir fjórum árum. En er hægt að grípa til varna?
„Varðandi Múlakvíslina er í sjálfu sér ekkert að gera. Við ráðum því ekkert hvaðan hún kemur undan jökli,“ svarar Jóhannes. Hann telur annað gilda um Leirá. Henni megi verjast, segir hann, og hvetur til aðgerða.
„Maður verður að vona að það verði brugðist við því áður en illa fer. Það hlýtur jú að vera hægara að byggja varnargarða heldur en byggja nýja brú.“