Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir að á þessari stundu sé ekki hægt að segja hversu lengi fram á sumarið þingið muni starfa. Samkvæmt starfsáætlun var gert ráð fyrir að þingi myndi ljúka í lok næstu viku. Einar lýsti því aftur á móti yfir á þingfundi í gær að starfsáætlunin væri ekki lengur í gildi.
„Það er mín niðurstaða og forsætisnefnd var alveg sammála mér í því mati að það væri óraunhæft að við gætum staðist þessa starfsáætlun. Þingið þyrfti að ætla sér lengri tíma,“ sagði Einar í samtali við Fréttablaðið.
Auk rammaáætlunar, sem nú er tekist á um á Alþingi, er allmikill fjöldi þingmála óafgreiddur. „Hins vegar er ljóst að boðað hefur verið frumvarp vegna gjaldeyrishaftanna og ég hef trú á því að það sé skilningur á því að það sé eitt af þeim málum sem þurfi að skapa rými fyrir í dagskránni,“ segir hann.
Einar segist vonast til þess að á næstu dögum skýrist málin þannig að hægt verði að búa til áætlun um þann tíma sem þingið mun starfa.
Óvíst hve lengi þingið starfar
