John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum síðar á þessu ári sé „vandræðaleg fyrir Bandaríkin.“ Hann segir að þjóðarleiðtogar séu hneykslaðir á framferði sumra frambjóðenda.
Sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna ferðast Kerry víða og er hann í góðu sambandi við leiðtoga heimsins. Segir hann að kosningabaráttan sé farin að hafa slæm áhrif á orðspor Bandaríkjanna og það fái hann að heyra í hvert sinn sem hann ferðist starfa sinna vegna.
„Þjóðarleiðtogar víða um heim eru hneykslaðir,“ sagði Kerry. „Baráttan er farin að skoða ímynd okkar sem stöðugt og ábyrgðarfullt ríki.“
Kerry tók ekki sérstaklega fram hvaða frambjóðendur honum þykir hafa farið yfir strikið en óhætt er að áætla að þar eigi hann við frambjóðendur Repúblikanaflokksins enda Kerry meðlimur í Demókrataflokknum.
Ummæli Ted Cruz og Donald Trump hafa valdið mörgum áhyggjum. Meðal þess sem Cruz hefur lagt áherslu á er að lögregla muni fylgjast sérstaklega vel með hverfum múslima í Bandaríkjunum. Þá hefur Trump lagt til að múslimum verði hreinlega meinuð innganga í Bandaríkin auk þess sem hann hefur sagst ætla að skipa hernum að pynta fjölskyldumeðlimi grunaðra hryðjuverkamanna verði han kjörinn.
Kosningabarátta forsetaframbjóðenda vandræðaleg fyrir Bandaríkin

Tengdar fréttir

Opinskár fundur á Kúbu
Barack Obama Bandaríkjaforseti ræddi mannréttindamál við Raul Castro, forseta Kúbu, í gær. Meirihluti Bandaríkjamanna styður bætt samskipti ríkjanna.

Clinton vinsælust meðal Íslendinga
Tæplega 53 prósent Íslendinga myndu kjósa Hillary Clinton til embættis forseta Bandaríkjanna.

Grátbáðu forsætisráðherra Kanada um að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna
Justin Trudeau nýtur mikilla vinsælda utan landsteinana.