Erlent

Cornwall kaus Brexit en biður nú um að passað verði upp á ESB-styrki til sýslunnar

Atli Ísleifsson skrifar
St Ives í Cornwall.
St Ives í Cornwall. Vísir/Getty
Meirihluti kjósenda í Cornwall-sýslu í suðvesturhluta Englands kaus með útgöngu úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær. Sveitarstjórn Cornwall hefur nú lagt fram beiðni um að sýslan missi ekki þá byggðastyrki sem komið hafa úr sjóðum ESB við útgöngu.

Í frétt Independent kemur fram að efnahagur Cornwall sé bágur og sýslan hafi því árlega fengið milljónir punda í styrki frá Evrópusambandinu síðasta áratuginn.

Tæplega 183 þúsund kjósenda Cornwall greiddu atkvæði með útgöngu, en rúmlega 140 þúsund með áframhaldandi aðild. Íbúar sýslunnar telja um 530 þúsund manns.

Fé til að bæta innviði

Með útgöngu Bretlands úr sambandinu er hætta á að þær fjárhæðir sem borist hafa úr byggðasjóðum ESB skili sér ekki til sýslunnar, en féð hefur verið notað til að bæta innviði, háskóla og bæta aðgengi að interneti.

John Pollard, leiðtogi sveitarsstjórnar Corwall, ræddi við fjölmiðla eftir að niðurstaða lá fyrir í kosningunum. „Nú þegar við vitum að Bretland mun yfirgefa ESB munum við grípa til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja að bresk stjórnvöld tryggi stöðu Cornwall í öllum samningaviðræðum við ESB.“

Loforð útgöngusinna

Pollard segir að Cornwall fari fram á að sýslan fái næga fjárfestingu sem jafnist á við þá sem hafi komið úr byggðasjóðum ESB sem hafa að jafnaði verið meiri en 60 milljónir punda á ári, um 10 milljarða króna, síðasta áratuginn.

Í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu sveitastjórnarinnar síðasta föstudag kom fram að baráttumenn fyrir útgöngu Bretlands úr ESB, hefðu heitið því að útganga myndi ekki hafa áhrif á þau framlög sem bærust til sýslunnar.

Stuðningsmenn útgöngu hétu því einnig að sýslan yrði ekki í verri málum þegar kæmi að fjárfestingu, gengi Bretland úr sambandinu. „Við leitum nú staðfestingar frá ráðherrum um að þetta sé raunin,“ sagði í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×