Erlent

Hefja kosningu um nýjan leiðtoga

Samúel Karl Ólason skrifar
Michael Gove, Theresa May, Liam Fox, Andrea Leadsom og Stephen Crabb.
Michael Gove, Theresa May, Liam Fox, Andrea Leadsom og Stephen Crabb. Vísir/EPA
Þingmenn Íhaldsflokksins í Bretlandi hefja nú í morgunsárið fyrstu umferð í formannskjöri eftir að David Cameron, forsætisráðherra, sagði af sér í kjölfar Brexit kosninganna þar sem Bretar ákváðu að hverfa úr Evrópusambandinu. Nýr formaður flokksins mun taka við því erfiða verkefni að semja við Evrópusambandið um útgöngu Breta.

Talið er líklegast að Theresa May innanríkisráðherra verði valin sem næsti formaður en orkumálaráðherrann Andrea Leadsom, þykir einnig koma til greina en hún hlaut í gær stuðningsyfirlýsingu frá Boris Johnson.

Fastlega hafði verið búist við því að Johnson myndi bjóða sig fram og sigra nokkuð örugglega en hann ákvað hins vegar í síðustu viku að gera það ekki. Þá hefur Nigel Farage, formaður sjálfstæðisflokksinsUKIP, einnig lýst því yfir að hann sé hættur í pólitík. Þannig hafa því þeir tveir sem heitast börðust hvað heitast fyrir Brexit, ákveðið að draga sig í hlé eftir að sigur vannst.

Um er að ræða fyrstu umferð af nokkrum og mun sá sem fær lakasta kosningu hellast úr lestinni. Önnur umferð verður á fimmtudaginn og svo sú þriðja eftir viku. 330 þingmenn flokksins taka þátt í kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×