Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að viðræður á milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Breta muni ekki hefjast á þessu ári. Þetta sagði hún á fundi með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem tók vel undir það og sagði mikilvægt að Bretar komi að samningaborðinu með skýra og skilgreinda samningsstöðu.
Þær May og Merkel funduðu í dag í fyrstu heimsókn May sem forsætisráðherra út fyrir landsteina Bretlands.
May hefur ítrekað beðið um þolinmæði heima fyrir og hún hefur sagt að Brexit þýði Brexit. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði virt.
Samkvæmt AFP fréttaveitunni verða erfiðustu samningaatriðin frjálst flæði fólks til vinnu. Merkel hefur áður varað við því að Bretar muni ekki halda aðgangi sínum að mörkuðum ESB án frelsis fólks til að búa og vinna í Bretlandi. Málefni innflytjenda var eitt helsta deilumál þjóðaratkvæðagreiðslunnar í júní.

