Mótmælendur skutu af byssum, köstuðu múrsteinum og kveiktu í bensínstöð í Milwaukee í Wisconsin í Bandaríkjunum í gærkvöldi, aðeins klukkustundum eftir að lögreglumaður skaut vopnaðan vegfaranda til bana í borginni.
Hörundslitur mannsins sem lögreglan skaut hefur ekki verið gefinn upp en atvikið átti sér stað í hverfi í borginni þar sem meirihluti íbúa er svartur.
Samkvæmt yfirvöldum var maðurinn 23 ára og hefur oft hlotið refsidóm. Lögreglan stöðvaði hann vegna gruns um umferðarlagabrot en hann var með skammbyssu á sér og flúði af vettvangi. Þá skaut lögreglumaðurinn með þeim afleiðingum að maðurinn dó.
Í frétt Guardian um málið segir að í yfirlýsingu lögregluyfirvalda í Milwaukee komi ekkert fram um það hvort að maðurinn hafi skotið í átt að lögreglumönnunum eða miðað byssunni að þeim.
Talið er að hátt í 100 manns hafi mótmælt í Milwaukee í gær. Mótmælin eru þau síðustu í röð sambærilegra mótmæla í Bandaríkjunum vegna lögregluofbeldis.
Fyrstu mótmælin brutust út haustið 2014 í borginni Ferguson í Missouri eftir að hvítur lögreglumaður skaut svartan ungan mann, Michael Brown, til bana. Síðan hafa svipuð mál komið upp víðs vegar um Bandaríkin með tilheyrandi reiði almennings, meðal annars í Baltimore og New York.
