Þá sagði hann að Clinton hefði blekkt fólkið með því að hafa eina stefnu sem hún sýni almenningi og aðra sem hún trúi á sjálf.
„Hér er hún á almannafæri og þykist ekki hata kaþólikka,“ sagði Trump. Þegar áhorfendur bauluðu á hann grínaðist Trump með að hann væri ekki viss hvort þeir væru reiðir við hann eða hana.
Gestir segjast ekki vita til þess að áður hafi verið baulað á fólk á kvöldverðinum.
Kvöldverðurinn sem um ræðir er áratugagömul hefð og er til styrktar góðgerðasamtökum kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum. Þar er hefð fyrir því að forsetaframbjóðendur mæti og geri léttvægt grín að sjálfum sér og mótframbjóðendum sínum.
„Sumir halda að það sé erfitt fyrir mig, en sannleikurinn er sá að ég er mjög hógvær manneskja. Sumir segja að hógværð mín sé minn besti eiginleiki.“
Þá gerði Trump grín að eiginkonu sinni.
„Fjölmiðlar eru hlutdrægari en þeir hafa nokkurn tíman verið. Viljið þið sannanir? Michelle Obama heldur ræðu og allir elska hana. Hún er fræbær. Þeir halda að hún sé frábær.
Eiginkona mín, Melania, heldur nákvæmlega sömu ræðu og allir verða brjálaðir.“
Trump bætti við að hann myndi líklega lenda í vandræðum heima fyrir vegna brandarans, þar sem eiginkona sín hafi ekki vitað af honum fyrir fram.
Hillary Clinton sagði gesti kvöldsins vera frekar heppna þar sem að hún hefði rukkað þá verulega við eðlilegar kringumstæður. Þá hefði hún tekið sér hlé frá lúra-dagskrá sinni til þess að mæta.
„Donald, eftir að hafa hlustað á ræðuna þína, hlakka ég líka til þess að hlusta á Mike Pence neita fyrir að þú hafi flutt hana.“