Aðilar vinnumarkaðarins hafa fram til mánaðamóta til að ljúka endurskoðun á forsendum um eitt hundrað kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. En Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins segja launahækkanir kjararáðs til þingmanna og annarra æðstu embættismanna vera langt umfram launahækkanir á almennum markaði og því í mótsögn við forsendur kjarasamninga.
Frumvarp þingmanna Pírata gerir ráð fyrir að kjararáð úrskurði að nýju um laun æðstu embættismanna og taki þá mið af almennri launaþróun. Jón Þór Ólafsson mælti fyrir tillögu Pírata að dagskrárbreytingu á Alþingi í dag svo taka mætti frumvarp þeirra fyrir.
„Málið er í rauninni einfalt. Það felst í rauninni bara í því að Alþingi fyrirskipi kjararáði að láta launaþróun ráðamanna fylgja launaþróun almennings. Þetta frumvarp er tækifæri fyrir Alþingi að gera sitt í átt til sátta á vinnumarkaði,“ sagði Jón Þór.

„Ég verð að gera athugasemdir við það að Píratar komi með dagskrártillögu að þessu tagi hér í lok dags í gær. Án þess að hafa nýtt tækifæri á fundum þingflokksformanna, forsætisnefndar eða annars staðar til að leggja áherslu á að þetta mál komist á dagskrá. Það var ekki gert,“ sagði Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins sagði formenn allra flokka hafa komist að þeirri niðurstöðu í desember að Alþingi hefði ekki forsendur til að breyta úrskurðum kjararáðs. En forsætisnefnd hefði hins vegar lækkað aukagreiðslur til þingmanna um 150 þúsund krónur á mánuði.
„Og tel eðlilegt að að það komi í ljós nú þegar hvaða afstöðu við höfum til þessa máls með því að taka málið annað hvort á dagskrá eða vísa því frá. Og við framsóknarmenn munum leggjast gegn því að málið fari á dagskrá vegna þess að við höfum ekki skipt um skoðun,“ sagði Sigurður Ingi.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra tók undir með formanni Framsóknarflokksins varðandi fyrri afgreiðslu formanna á málinu í desember, sem leitt hafi til lækkunar greiðslna til þingmanna.
„Og við sjáum engar forsendur til þess að menn séu að taka þetta mál upp núna „með skyndingu“ til að reyna að berja sér á brjóst,“ sagði Benedikt Jóhannesson.