„Það er mjög slæmt veður, yfir 30 metrar á sekúndu og fimm stiga frost,“ segir Jón Sigurðarsson, formaður björgunarsveitarinnar Vopna um aðstæður á Möðrudalsöræfum þar sem þrjár rútur lendu í vandræðum fyrr í dag.
Tvær smárútur lentu í árekstri og sú þriðja, stærri rúta, fauk út af veginum við Svartfell í Langadal. 62 erlendir ferðamenn voru um borð í rútunum þremur. Austurfrétt greindi fyrst frá.
Engin slys urðu á fólki en að sögn Jóns voru farþegar í annarri smárútunni orðnir nokkuð kaldir en rúða í henni brotnaði við áreksturinn.
Ferðamennirnir voru fluttir í aðrar rútur og eru rúturnar nú á leið til Egilsstaða í fylgd björgunarsveitamanna.
Búið er að loka veginum yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði vegna veðurs um óákveðinn tíma en spáð er mjög hvössum vindi á Austur- og Suðausturlandi um leið og kröpp lægð fer til suðurs skammt fyrir austan land.
Búist er við að veður verði í hámarki alveg til klukkan níu í kvöld. Jón segir þó að björgunarsveitir á Austurlandi séu ekki með sérstakan viðbúnað vegna veðursins, en séu þó klárar komi kallið.
Kaldir og blautir eftir að rúða brotnaði í einni rútunni

Tengdar fréttir

Rútur lentu í árekstri á Möðrudalsöræfum
Mjög slæmt veður á slysstaðnum, hvasst og snjókoma en farþegar verða fluttir í aðrar rútur.