Körfubolti

Jimmy Butler spangólar nú sem Úlfur

Jimmy Butler er farinn til Minnesota.
Jimmy Butler er farinn til Minnesota. vísir/getty
Liðin í NBA-deildinni hristu sum hver hressilega upp í leikmannamálum sínum í gærkvöldi þegar nýliðavalið fór fram en engin leikmannaskipti komu meira á óvart en það sem gerðist hjá Chicago Bulls.

Chicago nefnilega sendi frá sér besta leikmann liðsins, Jimmy Butler, þrefaldan stjörnuleikmann og landsliðsmann Bandaríkjanna, en hann fór til Minnesota Timberwolves og endurnýjar þar kynnin við sinn gamla þjálfara Tom Thibodeau.

Fyrir Butler fékk Chicago Bulls leikmennina Kris Dunn og Zach LaVine frá Minnesota auk sjöunda valréttar í nýliðavalinu sem Bulls nýtti til að landa Finnanum Lauri Markkanen. Markkanen er risi sem getur neglt niður þristum eins og enginn sé morgundagurinn.

„Það sem við gerðum í kvöld var að marka nýja stefnu. Við ætlum núna að spila á ungum leikmönnum. Við ætlum að vera agaðir og þolinmóðir,“ sagði John Paxon, varaforseti Bulls, eftir atburði gærkvöldsins svona rétt til að róa stuðningsmennina niður.

„Það er erfitt að taka svona ákvarðanir. Við sendum frá okkur strák sem okkur líkar mjög vel við. Í kvöld tókum við ákvörðun um að breyta um stefnu,“ sagði John Paxon.

Hér að neðan má sjá brot af því besta með Lauri Markkanen.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×