Erlent

Samþykkt að færa Brexit-viðræður á næsta stig

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Theresa May og Jean Claude Juncker.
Theresa May og Jean Claude Juncker. Vísir/Getty
Leiðtogar Evrópusambandsins hafa samþykkt að færa viðræður við yfirvöld í Bretlandi um útgöngu Bretlands úr ESB yfir á næsta stig. Viðræðurnar munu nú snúast um hvernig langtímasambandi Bretlands og ESB verði háttað. BBC greinir frá.

Reiknað er með að viðræðurnar hefjist snemma á næsta ári. Er reiknað með að fyrst um sinn verði rætt um Bretland og ESB muni taka á þeim umskiptum sem verða á fyrstu tveimur árunum eftir að Bretland yfirgefur ESB á formlegan hátt. Stefnt er að því að það verði í mars 2019.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fagnaði ákvörðun leiðtoga ESB en Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir að nú fyrst verði viðræðurnar snúnar.

Ríkjum innan ESB er nú einnig heimilt að hefja tvíhliða viðræður við Bretland um framtíðarfyrirkomulag samskipta sín á milli en reiknað er með að viðræður ESB og Bretlands um efnahagslega samvinnu hefjist ekki fyrr en í mars.

Þá er reiknað með að í næstu viku muni May kynna áætlanir ríkisstjórnar Bretlands um hvernig hún sjái fyrir sér framtíð Bretlands utan ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×