Ríkisstjórn Bandaríkjanna tók í gær ákvörðun um að frysta eignir þrettán einstaklinga sem grunaðir eru um alvarleg mannréttindabrot og spillingu.
Einna mesta athygli vakti nafn mjanmarska hershöfðingjans Maung Maung Soe á listanum. Í tilkynningu frá bandaríska fjármálaráðuneytinu segir að Soe hafi haft yfirumsjón með aðgerðum hersins gegn Róhingjum í Rakhine-héraði. Hann beri ábyrgð á alvarlegum mannréttindabrotum gegn Róhingjum.
Bandaríkjamenn hafa áður sagt mjanmarska herinn standa að þjóðernishreinsunum á Róhingjum. Þeir drepi saklausa borgara og brenni bæi Róhingja til grunna. Því hafa mjanmörsk yfirvöld þó neitað.
Á meðal annarra sem fá sömu meðferð og Soe eru fyrrverandi Gambíuforsetinn Yahya Jammeh. Hann steig til hliðar fyrr á árinu og segir í tilkynningunni að hann eigi sér „langa sögu alvarlegra mannréttindabrota og spillingar“. Jammeh hafi stofnað hryðjuverka- og dauðasveitir sem hafi ráðist á þá sem hann taldi ógna valdi sínu.
Þá hafa eignir pakistanska skurðlæknisins Mukhtar Hamid Shah verið frystar. Læknirinn er sagður hafa framið mannrán, haldið fórnarlömbum gegn vilja sínum, fjarlægt líffæri þeirra og selt á svörtum markaði.
Gulnara Karimova, dóttir úsbekska leiðtogans fyrrverandi, Islams Karimov, er einnig á listanum. Hún er sögð hafa verið í forsvari fyrir skipulögðum glæpasamtökum sem mútuðu og hótuðu kjörnum fulltrúum. Karimova hefur áður verið sakfelld fyrir þjófnað, fjárdrátt og skattsvik.
Mjanmarskur hershöfðingi á svarta listann og eignir hans frystar
