Eins og greint var frá í Fréttablaðinu í gær vill meirihluti félagsmanna Rafiðnaðarsambands Íslands að kjarasamningum verði sagt upp núna, enda sé skýr forsendubrestur. Þetta eru niðurstöður viðhorfskönnunar sem gerð var á meðal félagsmanna. Rafiðnaðarsambandið telur ljóst að forsendur hafi brostið fyrir ári en ákveðið hafi verið að fresta ákvörðun til þessa árs.
Þá kallaði stjórn og trúnaðarráð stéttarfélagsins Framsýnar fyrr í vikunni eftir uppsögn samninga verði ekki orðið við kröfum um leiðréttingu launa og að ríkisstjórnin komi til móts við áherslur verkalýðshreyfingarinnar í velferðarmálum,
Halldór Benjamín vill ekkert tjá sig um störf forsendunefndarinnar áður en hún lýkur störfum, en segir það skoðun Samtaka atvinnulífsins að mikilvægt sé að meta það sem áunnist hafi undanfarin ár.

Bæði forysta Framsýnar og Rafiðnaðarsambandið segja ákvarðanir kjararáðs hafa stuðlað að forsendubresti. Það hafi ákvarðanir í skattamálum líka gert.
VR er stærsta stéttarfélagið innan ASÍ. Formaðurinn, Ragnar Þór Ingólfsson, segir fulltrúa atvinnulífsins hafa fundað fjórum sinnum með stjórnvöldum og fulltrúum sveitarfélaganna undanfarnar vikur, nú síðast á mánudaginn. Þar hafi meðal annars verið rædd mál tengd kjararáði.
„Þegar maður skynjar vilja stjórnvalda til þess að reyna að leysa þetta mál þá erum við tilbúin til þess að hlusta,“ segir Ragnar. Líkur séu á því að VR geri sambærilega könnun meðal sinna félagsmanna og Rafiðnaðarsambandið gerði, en ekki fyrr en niðurstaða er fengin um kjararáðsmálin.
Halldór segir að ferlið fram undan verði þannig að forsendunefndin komist að niðurstöðu fyrir mánaðamót. „Ef hún kemst að þeirri niðurstöðu að forsendur hafi haldist þá gerist ekki neitt. Ef forsendunefndin kemst að þeirri niðurstöðu að forsendur séu brostnar, þá er því vísað til samninganefndar ASÍ og framkvæmdastjórnar SA sem geta komið með viðbragð í framhaldinu.“