Dánardómstjóri í Kanada ruglaði saman nöfnum tveggja ungra manna sem lentu í mannskæðu rútuslysi þar í landi um helgina. Mistökin urðu til þess að annar mannanna, sem slasaðist í slysinu, var sagður látinn, og annar sem lést sagður slasaður. BBC greinir frá.
Fimmtán hafa nú verið úrskurðaðir látnir eftir að vöruflutningabíll lenti á rútu í Tisdale í Saskatchewanhéraði í Kanada í fyrradag. Ungmennalið íshokkíliðsins Humboldt Broncos var í rútunni ásamt þjálfurum þegar slysið varð.
Opinber listi var gefinn út með nöfnum þeirra sem létust í slysinu auk nöfnum þeirra sem fluttir voru til aðhlynningar á sjúkrahús. Á fyrstu útgáfu listans, sem var í gildi í heilan dag, sagði að hinn átján ára Xavier Labelle hefði látist í slysinu. Við nánari athugun reyndist hann hins vegar aðeins slasaður.
Þá þurfti að fjarlægja nafn Parkers Tobin af lista yfir þá slösuðu en hann lést í slysinu. Talsmaður dómsmálaráðuneytis Saskatchewanhéraðs, Drew Wilbym, sagði að upp hefði komist um mistökin seint á sunnudagskvöld. Fjölskyldur beggja mannanna hafa verið látnar vita af mistökunum.
„Margir þessara stráka voru áþekkir í sjón. Þeir eru með litað, ljóst hár til að sýna liði sýnu stuðning, þeir eru allir svipaðir að líkamsbyggingu, þeir eru á sama aldri og auðvitað mjög íþróttamannslegir,“ bætti hann við.
Tíu af þeim fimmtán sem létust í slysinu í fyrradag voru liðsmenn íshokkíliðsins. Mikil sorg hefur gripið um sig í Kanada vegna slyssins.
Slasaðist í mannskæðu rútuslysi en sagður látinn á opinberum lista

Tengdar fréttir

14 látin eftir rútuslys í Kanada
Fjórtán létu lífið og aðrir fjórtán slösuðust eftir að flutningabíll og rúta skullu saman.