Innlent

Segir fjármálaáætlunina með öllu óraunhæfa

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, var afar gagnrýninn á fjármálaáætlunar næstu fimm ára.
Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, var afar gagnrýninn á fjármálaáætlunar næstu fimm ára.
Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, telur fjármálaáætlunina sem kynnt var á miðvikudag, vera óraunhæfa. Sjálfur hefði hann helst kosið að halda skattstiginu óbreyttu á meðan unnið væri að því að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

„Hún [fjármálaáætlunin] gerir ráð fyrir fordæmalausum vexti í ríkisútgjöldum á sama tíma og menn ætli að lækka skatta,“ segir Þorsteinn. Hann telur augljósan sannleik að grípa þurfi til skattahækkana til þess að standa undir vexti í ríkisútgjöldum.

Þorsteinn tekur mið af fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar meðal annars í útgjaldaaukningu til heilbrigðismála þegar hann segir: „Ríkissjóður ekki geta staðið undir þessum loforðum nema kannski í besta falli í eitt tvö ár fram í tímann og svo mun það bresta og ætla síðan að lækka skatta ofan í þetta er algjörlega óraunhæft.“

Um fjármálaáætlunina hefur Þorsteinn orðið „draumsýn“ og segir að verið sé að tæma sparibaukinn.

„Það er verið að eyða öllu lausafé sem finnst. Það er verið að taka arðgreiðslur út úr bönkunum aukalega og setja það inn í rekstur. Það var dálítið táknrænt að forsætisráðherra gæfi seðlabankastjóra sparibauk á ársfundi seðlabankans því það er kannski það sem þessi ríkisstjórn er að gera, hún er að hrista þennan sparibauk algjörlega galtóman og hún mun ekki getað staðið undir þessum útgjaldaloforðum.“

Þorsteinn Víglundsson var einn gesta Heimis Más Péturssonar í þjóðmálaþættinum Víglínunni í hádeginu en til umfjöllunar var fjármálaáætlun næstu fimm ára en stærstu útgjaldaliðir snúa að heilbrigðismálum og innviðauppbyggingu.

Í myndspilaranum hér að neðan er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×