Embættismenn á Kúbu segja að annar tveggja svartra kassa úr farþegaflugvélinni sem fórst nærri flugvellinum í Havana í gær hafi fundist í „góðu ástandi“. Nú er staðfest að 110 manns hafi farist með flugvélinni, þar af ellefu útlendingar.
Rannsakendur hafa kembt flak flugvélarinnar sem hrapaði skömmu eftir flugtak í gær. Þeim hefur tekist að finna annan svarta kassann og segir Adel Yzquierdo, samgönguráðherra Kúbu, að hann vonist til þess að hinn finnist fljótt. Svarti kassinn gæti varpað ljósi á hvað fór úrskeiðis.
Vitni hafa sagst hafa séð kvikna í vélinni áður en hún brotlenti á akri við skóglendi nærri José Martí-flugvellinum í Havana. Flugvélin var af gerðinni Boeing 737-201 og var nærri því fjörutíu ára gömul.
Yzquierdo segir að af þeim 110 sem fórust hafi 99 verið Kúbverjar, sex mexíkóar úr áhöfn vélarinnar, tveir ferðamenn frá Argentínu, einn frá Mexíkó og tveir farþegar frá Vestur-Sahara. Aðstandendur margra þeirra sem létust hafa ferðast til Havana til að bera kennsl á þá, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Tveggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir á Kúbu vegna flugslyssins sem er það versta á eyjunni í fleiri áratugi.
Svartur kassi úr flugvélinni sem fórst fundinn

Tengdar fréttir

Yfir hundrað létust í flugslysinu á Kúbu
Viðbragðsaðilar náðu að koma þremur farþegum til bjargar en þeir voru dregnir úr flaki flugvélarinnar. Þeir liggja nú þungt haldnir á spítala.

Þjóðarsorg lýst yfir á Kúbu
Miguel Diaz-Canel, forseti Kúbu hefur lýst yfir þjóðarsorg í kjölfar flugslyssins.

Flugvélin flæktist í rafmagnslínum
Svo virtist sem flugstjórinn og flugaðurinn hafi ekki náð að lyfta flugvélinni

Brotlenti skömmu eftir flugtak í Havana
Hundrað og fjórir farþegar voru um borð í vélinni.