Samkomulag náðist á milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og óháðra um myndun meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í dag. Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, verður bæjarstjóri.
Í tilkynningu sem flokkarnir sendu frá sér kemur fram að Ágúst Bjarni Garðarsson, oddviti Framsóknar, verði formaður bæjarráðs og Kristinn Andersen frá Sjálfstæðisflokki forseti bæjarstjórn.
Flokkarnir segjast nú leggja lokahönd á málefnasamning nýs meirihluta. Hann verður kynntur stofnunum flokkanna og opinberaður eftir helgi. Í samningunum segjast flokkarnir leggja áherslu á málefni fjölskyldunnar, eldri borgara og skilvirka þjónustu í þágu íbúa og fyrirtækja.
