Körfubolti

Búið að finna eftirmenn Inga Þórs í Hólminum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Darrell Flake, til hægri, verður spilandi aðstoðarþjálfari hjá Snæfelli
Darrell Flake, til hægri, verður spilandi aðstoðarþjálfari hjá Snæfelli
Körfuknattleiksdeild Snæfells var með pennann á lofti í Stykkishólmi í gær þegar tilkynnt var um ráðningu á nýju þjálfarateymi hjá báðum meistaraflokkum félagsins auk þess sem lykilmenn skrifuðu undir nýja samninga.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Ingi Þór Steinþórsson hefur stýrt karla og kvennaliði félagsins undanfarin ár en hann færði sig um set á dögunum og tók við KR.

Baldur Þorleifsson tekur við kvennaliði Snæfells en hann hefur aðstoðað Inga Þór þar undanfarin tímabil. Baldur er fyrrum leikmaður Snæfells og sá elsti til að skora körfu í efstu deild. Vladimir Ivankovic mun aðstoða Baldur með kvennaliðið auk þess að þjálfa karlaliðið.

Snæfell hefur verið með öflugt lið í kvennaboltanum undanfarin ár og verða það áfram því þær Berglind og Gunnhildur Gunnarsdætur, Rebekka Rán Karlsdóttir og Thelma Lind Hinriksdóttir hafa framlengt samninga sína við félagið.

Darrell Flake í HólminnÁðurnefndur Vladimir Ivankovic mun stýra karlaliðinu sem er í 1.deild. Ivankovic er króatískur og með flotta ferilskrá á bakinu en hann hefur þjálfað í Króatíu, Serbíu, Þýskalandi og Rúmeníu.

Hann var með kvennalið í Euroleague um tíma auk þess sem hann var landsliðsþjálfari króatíska kvennalandsliðsins.

Darrell Flake kemur frá Skallagrím til Snæfells og verður spilandi aðstoðarþjálfari en Flake á farsælan feril hér á landi þar sem hann hefur leikið með Tindastól, Grindavík og fleiri félögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×