Erlent

Breskir ráðherrar ósáttir við viðvaranir fyrirtækja um Brexit

Kjartan Kjartansson skrifar
Brexit var mótmælt í London í gær á tveggja ára afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar örlagaríku.
Brexit var mótmælt í London í gær á tveggja ára afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar örlagaríku. Vísir/Getty
Viðvaranir stórfyrirtækja um afleiðingar þess ef Bretar segja skilið við Evrópusambandsins án þess að fyrir liggi samningur um framtíðarsamband þeirra eru „fullkomlega óviðeigandi“ að mati Jeremy Hunt, heilbrigðisráðherra Bretlands. Hann segir viðvaranirnar grafa undan Theresu May, forsætisráðherra, í viðræðum hennar við fulltrúa ESB. Merki eru um að gjá sé að myndast á milli stjórnenda fyrirtækja og forystu Íhaldsflokksins vegna Brexit.

Flugvélaframleiðandinn Airbus varaði við því að framtíð fyrirtækisins á Bretlandi gæti verið í uppnámi ef svonefnt hart Brexit verður ofan á með engum samningi á milli Breta og ESB. Fyrirtækið framleiðir alla vængi á farþegaflugvélar sínar á Bretlandi.

Fleiri fyrirtæki hafa lýst áhyggjum sínum af stöðunni en lítið hefur þokast í samkomulagsátt á milli breska stjórnvalda og ESB. Harðlínumenn í Íhaldsflokknum hafa ennfremur þrýst á May að útiloka ekki að segja skilið við sambandið án nokkurs samnings ef kjörin sem ESB býður eru ekki Bretum þóknanleg.

Hunt, sem er talinn áhrifamikill innan Íhaldsflokksins, er ekki sáttur við viðvaranir fyrirtækjanna. Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC vísaði hann til viðkvæmrar stöðu í Brexit-samningaviðræðunum og mikilvægis þess að Bretar fylktu sér að baki May.

„Því meira sem við gröfum undan Theresu May því líklegra er að við endum með graut sem verður alger hörmung fyrir alla,“ sagði Hunt.

Liam Fox, alþjóðaviðskiptaráðherrann, tók í sama streng og sagði viðvörunarorð fyrirtækjanna grafa undan samningsstöðu Breta, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

„Fólkið sem setur þessi ummæli fram verður að skilja að það gæti verið að setja Bretland í krappa stöðu með því að setja þau fram,“ sagði Fox.

Þá bárust fréttir af því um helgina að Boris Johnson, utanríkisráðherra, hefði hafnað áhyggjum viðskiptalífsins með fúkyrði á fundi með evrópskum erindrekum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×