Sigurður Jónasson er ásamt fjölskyldu sinni innlyksa í sumarhúsi í Skaftárdal, innst í Skaftártungu vegna Skaftárhlaups.
Fjölskyldan hefur verið í sumarhúsinu, sem er gamall bóndabær, frá því fyrir helgi. Ætli þau að komast í burtu frá bænum þurfa þau að fara erfiða og langa fjallabaksleið en fjölskyldan er þó hvergi bangin.
„Það er tignarlegt að vera í hásæti hér og horfa á þetta, fyrst þetta þarf að koma,“ segir Sigurður í samtali við fréttastofu. Fjölskyldan hafi fylgst með hlaupinu út um glugga sumarhússins.
Fjölskyldan er örugg þar sem hún er því útlit er fyrir að rennslið sé í rénun og hið versta afstaðið. Tvær brýr liggja að bænum og enn sem komið er halda þær báðar. Aftur á móti hefur grafið í sundur beggja vegna annarrar þeirra og beljar fljótið á brúarstöplunum.
„Við bara horfum á þetta út um gluggann hjá okkur og við náttúrulega komumst aldrei til baka þótt vatnið hverfi því það er allt vegarsamband farið,“ segir Sigurður um áhrif Skaftárhlaups.

