Stjórnarflokkurinn í Simbabve, Zanu-PF, virðist hafa náð flestum þingsætum samkvæmt tölum frá yfirkjörstjórn þar í landi. Forseta- og þingkosningar fóru fram í landinu á mánudag.
BBC greinir frá því að fastlega sé búist við að Emmerson Mnangagwa forseti hafi sigrað, sem og að flokkur hafi náð öruggum meirihluta í báðum deildum þingsins.
Talsmenn stjórnarandstöðuflokksins, MDC bandalagsins, segja hins vegar brögð hafa verið í tafli og að frambjóðandi þeirra, Nelson Chamisa, hafi borið sigur úr býtum.
Alþjóðlegir eftirlitsaðilar munu kynna niðurstöður sínar varðandi framkvæmd kosninganna síðar í dag.
Fyrstu kosningarnar eftir valdatíð Mugabe
Þetta eru fyrstu kosningarnar í landinu frá því að hinn þaulsetni Robert Mugabe var bolað úr embætti. Mugabe neitaði að lýsa yfir stuðningi við Mnangagwa.
Ríkisfjölmiðlar í Simbabve hafa greint frá því að yfirkjörstjórn hafi enn sem komið er greint frá því að Zanu-PF hafi náð 110 þingsætum og MDC bandalagið 41.Alls eiga 210 sæti í neðri deild þingsins.
Kjörsókn mældist um 70 prósent, nokkuð hærri en búist var við.
