Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, hyggst ræða möguleikann á að haldinn verði sérstakur leiðtogafundur vegna Brexit þegar leiðtogaráðið kemur saman til fundar í Salzburg í Austurríki síðar í vikunni.
„Við munum ræða hvernig eigi að skipuleggja síðasta stig Brexit-viðræðnanna ásamt möguleikann á að halda aukaleiðtogafund í nóvember,“ segir Tusk í boðskorti sínu til leiðtoga ESB-ríkjanna vegna fundarins í Salzburg.
Málið verður til umræðu um hádegi á fimmtudag, þar sem leiðtogarnir munu samkvæmt dagskrá ræða mál sem tengjast útgöngu Bretlands úr ESB.
Tusk ítrekar einnig mikilvægi þess að finna farsæla lausn varðandi það hvernig skuli haga málum á landamærum Norður-Írlands og Írlands eftir útgöngu til að tryggja að ekki verði nein „hörð landamæri“, það er engar hindranir, í framtíðinni.
Bretland mun formlega ganga úr ESB þann 29. mars á næsta ári og er nú unnið hörðum höndum að því að semja um hvernig samningur ESB og Bretlands skuli háttað.
