Samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands frá árinu 2017 voru aðeins 30,9 prósent starfsmanna við uppeldis- og menntunarstörf í leikskólum landsins með próf sem leikskólakennarar.
Oddviti Miðflokksins í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, Sigurður Þ. Ragnarsson, gerði skort á leikskólakennurum í Hafnarfirði að umtalsefni í vikunni og sagði það blekkingu að halda úti faglegu skólastarfi með svo fáa leikskólakennara innan vébanda bæjarins. Bæjaryfirvöld sendu í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem þau töldu ummæli Sigurðar og umfjöllun hans ósanngjarna.

Í lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda, sem eru frá árinu 2008, er kveðið á um að að minnsta kosti tvö af hverjum þremur stöðugildum við kennslu, umönnun og uppeldi séu mönnuð einstaklingum með m leikskólakennarapróf. Sveitarfélagið sem uppfyllir þetta skilyrði laganna er Hörgársveit í Eyjafirði en 77 prósent starfsmanna á leikskólanum í sveitarfélaginu eru með próf í leikskólakennarafræðum.
Fjögur sveitarfélög hér á landi hafa enga menntaða starfsmenn í fræðunum á sínum leikskóla. Það eru Eyja- og Miklaholtshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Breiðdalshreppur og Mýrdalshreppur.