Það var þétt skipaður bekkurinn í Ráðhúsi Árborgar síðdegis í gær þar sem landeigendur voru boðaðir á fund þar sem hugmyndin um nýja alþjóðaflugvöllinn var kynnt. Það eru bræðurnir Andri Björgvin og Sigtryggur Arnþórssynir, báðir lögfræðingar og Páll Heiðar Pálsson, fasteignasali sem eru forsvarsmenn verkefnisins. Þeir segja að það mikilvægasta í málinu núna sé að fá viljayfirlýsingu frá Árborg um að farið verði í að kanna með alla möguleika verkefnisins.
„Það er í rauninni grundvöllurinn, við erum ekki að fara að bora þarna eða setja niður veðurathugunarstöðvar í vanþökk sveitarfélagsins“, segir Andri Björgvin.
„Ég geri ráði fyrir að viðskiptaáætlun yrði mjög jákvæð og veðurfarsathuganir verði mjög jákvæðar. Það er svolítið flókið varðandi jarðveginn, það þarf að skipta þarna út gríðarlegum jarðvegi til þess að gera þetta og svo er það náttúrulega umhverfismatið og afstaða íbúanna, það eru óljósu þættirnir held ég“, segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg.
En hvernig er hljóðið í íbúum varðandi flugvöllinn?
„Það er mjög gott hljóð í íbúum finnst mér, mikill áhugi á að þetta verði skoðað.“

„Mér finnst hún frekar galin já, með fullri virðingu fyrir þeim sem eiga hlut að máli. Ég held að fólki lítist ekkert allt of vel á það að vera með þotuumferð yfir höfðinu á sér, flugvélar, sem eru að lenda og taka á loft, en ég tala að sjálfsögðu ekki fyrir aðra, en mér finnst að það eigi að bera málið undir okkur sem búum þarna“, segir Guðný.

„Mér finnst bara frábært að menn séu með svona hugmyndir og mjög gaman af því að fá stórar hugmyndir um nýjan flugvöll, það er sannarlega þörf á því,“ segir Ingimar.
