Hátt í fjögur þúsund manns heimsóttu skíðasvæðið í Bláfjöllum í dag enda logn, sól og skíðafæri afar gott þessa fyrstu skíðahelgi ársins í Bláfjöllum.
Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, er hæstánægður með daginn og segist hafa beðið hans í einn og hálfan mánuð.
„Þetta er ótrúlegur fjöldi,“ segir Einar sem hefur aldrei séð eins langa röð í nýju stólalyftuna Kónginn.
Einar segir að dagurinn hafi gengið afar vel og að enginn hafi slasað sig í brekkunum.
„Þetta er meiriháttar,“ segir Einar léttur í bragði.
Skíðasvæðið verður opið til klukkan 17.00 í dag.

