Erlent

HIV-laus í átján mánuði eftir stofnfrumumeðferð

Kjartan Kjartansson skrifar
HIV-próf. Myndin er úr safni.
HIV-próf. Myndin er úr safni. Vísir/EPA
Breskur karlmaður sem greindist með HIV-veiruna árið 2003 hefur verið laus við hana í átján mánuði eftir að hann fór í stofnfrumumeðferð. Þetta er aðeins annað dæmið um að HIV fari í sóttarhlé en læknar segja of snemmt af fullyrða að maðurinn sé læknaður af sjúkdómnum.

Auk HIV-smitsins greindist maðurinn með Hodgkins-eitilfrumukrabbamein árið 2012. Hann gekkst undir lyfjameðferð vegna krabbameinsins en í hann voru einnig græddar stofnfrumur úr sjúklingi sem er ónæmur fyrir HIV-veirunni. Í kjölfarið rénaði bæði krabbameinið og veiran. Maðurinn hefur síðan hætt að taka inn HIV-lyf, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Læknarnir segja að þessi meðferð sé ekki raunhæf fyrir flesta HIV-sjúklinga en vonast til þess að hún geti hjálpað til við að finna lækningu við sjúkdómnum. Þeir hafa skrifað grein um meðferð mannsins í vísindaritið Nature.

Aðeins eitt annað dæmi er um HIV-veiran fari í sóttarhlé. Fyrir tíu árum fór sjúkdómurinn í rénun í karlmanni í Berlín eftir að hann fékk beinmerg úr sjúklingi sem var ónæmur fyrir veirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×