Viðskipti innlent

Vegagerðin semur við Sigurð Áss um starfslok

Sighvatur Jónsson skrifar
Sigurður Áss Grétarsson lauk störfum hjá Vegagerðinni í gær.
Sigurður Áss Grétarsson lauk störfum hjá Vegagerðinni í gær. Vísir/BHJ
Sigurður Áss Grétarsson hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar. Sigurður var sendur í leyfi í byrjun febrúar. Gert hefur verið samkomulag við Sigurð um starfslok en hans síðasti vinnudagur hjá Vegagerðinni var í gær.

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, G. Pétur Matthíasson, staðfestir að samið hafi verið um starfslok við Sigurð Áss. Hann veitir hvorki frekari upplýsingar um ástæðu þess að Sigurður lætur af störfum né hvers vegna Sigurður var sendur í leyfi.

Sigurður Áss segir í samtali við fréttastofu að samið hafi verið um starfslok hans fyrir viku. Hann hafi lokið störfum hjá Vegagerðinni í gær. Sigurður vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Sigurður Áss er verkfræðingur að mennt og hefur til dæmis verið áberandi í umfjöllun fjölmiðla um málefni Landeyjahafnar og nýs Herjólfs. Áður en Sigurður hóf störf hjá Vegagerðinni gegndi hann stöðu forstöðumanns hafnasviðs Siglingastofnunar. Hann var jafnframt meðal þeirra 25 einstaklinga sem sóttu um stöðu forstjóra Vegagerðarinnar um mitt síðasta ár.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×