Fyrrum forseti Brasilíu, Michel Temer, hefur verið handtekinn í tengslum við víðtæka rannsókn um spillingu í Brasilíu.
Temer sat sem forseti frá árinu 2016-2018 og verið er að rannsaka hann vegna nokkurra mála en hann hefur ítrekað neitað því að hafa gert nokkuð rangt. Talið er að ekki hafi verið hægt að komast hjá handtökunni eftir að hann missti lögvernd sína sem forseti.
Fjölmargir hafa verið handteknir í tengslum við þessa aðgerð, sem kallast „bílaþvottaaðgerðin“, bæði stjórnmálafólk og viðskiptafólk.
Temer tók við forsetaembættinu í ágúst 2016 eftir að Dilmu Rousseff var vísað úr starfi. Hún var einnig ákærð í tengslum við „bílaþvottaaðgerðina.“
Luiz Inácio Lula da Silva sem var forseti Brasilíu 2003-2011 afplánar nú 12 ára dóm vegna spillingar, en mál hans var einnig hluti af „bílaþvottaaðgerðinni“.
Þrír fyrrum forsetar Brasilíu ákærðir í „bílaþvottaaðgerðinni“

Tengdar fréttir

Jair Bolsonaro verður næsti forseti Brasilíu
Útgönguspár benda til að hægrimaðurinn Jair Bolonaro verði næsti forseti Brasilíu.

Lula með forystu í könnunum þrátt fyrir spillingardóm
Skoðanakannanir benda til þess að Lula da Silva hafi aukið forskot sitt á aðra frambjóðendur. Ólíklegt er þó talið að hann fái að bjóða sig fram.

Fyrrverandi forseti Brasilíu þarf að hefja afplánun
Luiz Inácio Lula da Silva var dæmdur í tólf ára fangelsi fyrir spillingu en hafði áfrýjað dómnum. Hann fær ekki að ganga laus á meðan.

Fangelsisdómur fyrrverandi forseta Brasilíu tvöfaldaður
Lula da Silva var talinn hafa þegið veruleg hlunnindi frá byggingarfyrirtæki þegar hann var forseti og var dæmdur í tæplega 13 ára fangelsi ofan á 12 ára dóm sem hann afplánar fyrir.