„Við sjáum fram á það að í miðjum júlí verðum við með skort á heilum lambahryggjum," segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Það verður bara búið?
„Já."
Lambahryggurinn er vinsælasta varan í kjötborðinu og úr honum eru gerðar kótiletturnar sem hafa selst óvenju vel í sumar vegna góðviðris. Hryggurinn er nú að klárast hjá afurðastöðvum og hafa matreiðslumenn og verslanaeigendur slegist um síðustu bitana. Enda er ekki von á meiru fyrr en eftir sláturtíð í haust.
„Við erum að skoða möguleika varðandi hvað við getum gert, til að hafa þessa vöru í boði fyrir okkar viðskipavini, og erum að skoða að flytja inn frá Nýja-Sjálandi," segir Gréta.

„Á milli fimmtán og tuttugu prósent af framleiðslu síðasta árs var seldur úr landi á síðasta ári, á verði sem er langt undir kostnaðarverði, langt undir því verði sem innlendum verslunum býðst. Í því skyni, vill ég fullyrða, til að geta hækkað verð á innlendum neytendum á því tímabili sem nú fer í hönd, þar sem mesta salan er á þessari vöru," segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Verslunareigendur sóttu um tollundanþágu vegna yfirvofandi skorts fyrir nokkrum vikum til ráðgjafanefndar um inn- og útflutning á landbúnaðarvörum. Andrés segir því hafa verið hafnað, einungis á grundvelli þess að afurðarastöðvarnar sögðust eiga nóg til. Eftir helgi verður sent annað erindi á sömu nefnd í ljósi þess að reyndin sé önnur. Hann segir þetta skipta miklu máli fyrir neytendur.
„Það hvort við séum að ræða um vöru sem er flutt inn á fullum tollum eða vöru sem er flutt inn á engum tollum skiptir gríðarlegu máli," segir Andrés.
Er þetta mikill verðmunur?
„Gifurlegur, það skiptir tugum prósenta."