Feðginin frá El Salvador sem drukknuðu í ánni Río Grande á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna í síðustu viku voru jarðsungin í dag. Fréttastofa CNN greinir frá þessu.
Mynd af föðurnum og dóttur hans þar sem þau liggja í ánni hefur vakið mikla athygli og farið víða um heim.
Um 200 ættingjar og vinir fylgdu þeim til grafar í La Bermeja kirkjugarðinum í suðurhluta eyjunnar San Salvador.
Óscar Alberto Martínez Ramírez og dóttir hans Valeria fundust látin í Río Grande, sem Mexíkóar kalla Río Bravo, fyrir viku síðan. Valeria var 23 mánaða gömul og faðir hennar 25 ára. Þau höfðu ætlað að komast til Bandaríkjanna.
Mynd sem blaðaljósmyndarinn Julia Le Duc tók sýndi föður og dóttur fljótandi með andlitið ofan í gruggugri ánni umkringd rusli, stúlkan með höfuðið innan undir bol föður síns. Þau ætluðu sér að sækja um hæli í Bandaríkjunum.
