Hersveitir voru sendar á náttúruverndarsvæði, landsvæði frumbyggja Brasilíu og annarra svæða þar sem eldarnir brenna glatt. Alþjóðasamfélagið hefur lýst yfir miklum áhyggjum og óánægju vegna eldanna en Bolsonaro hefur verið talinn ekki gera nóg til að vinna bug á eldunum og hefur verið sakaður um að hvetja bændur og námuverkafólk að ryðja burt skóglendi.
Auk þess hafa nokkur ríki hótað refsiaðgerðum ef ekkert verði gert, þar á meðal Frakkland og Írland en leiðtogar beggja landanna hótuðu í gær að koma í veg fyrir fríverslunarsamning á milli Brasilíu og Evrópusambandsins. Efnahagsráðherra Finnlands kallaði einnig eftir því að Evrópusambandið myndi íhuga það að banna nautakjötsinnflutning frá Brasilíu.
Talið er að margir eldanna hafi verið kveiktir af mönnum, þá sérstaklega bændum, til að ryðja fyrir ræktarlandi. Aðalsteinn Sigurgeirs, fagmálastjóri Skógræktarinnar, sagði í kvöldfréttum RÚV á fimmtudag að skógareldar væru ekki eðlilegur hluti af Amason regnskóginum. Gífurlegt uppstreymi raka sé í regnskóginum og ættu eldar því ekki að kvikna sjálfkrafa.
Bolsonaro hefur gert lítið úr baráttu umhverfisverndarsinna og lýst yfir stuðningi við skógruðning í Amason til landnýtingar. Umhverfisverndarsinnar og sérfræðingar í náttúruvísindum segja að stjórn Bolsonaro hvetji til eyðingu skógarins.
Leiðtogar sjö stærstu iðnríkja heims funda í Frakklandi um helgina á fundi G7 ríkjanna og munu eldarnir í Amasón vera í brennipunkti á fundinum. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur talað fyrir því að eldarnir sem nú geisa í regnskóginum verði settir á oddinn.