Innlent

Skammbyssa reyndist vera dótabyssa

Sylvía Hall skrifar
Talsverður erill var hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt.
Talsverður erill var hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm
Sex voru vistaðir í fangageymslu lögreglu í gærkvöldi og í nótt en alls kom 101 mál inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þá þurfti lögregla að hafa afskipti af þónokkrum ökumönnum vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og reyndust nokkrir ekki vera með ökuréttindi í lagi.

Skömmu fyrir klukkan ellefu í gærkvöld barst lögreglu tilkynning um ætlaða skammbyssu á gangstétt í miðborg Reykjavíkur. Frekari eftirgrennslan leiddi í ljós að þarna var um að ræða plastdótabyssu sem hafði verið skilin eftir.

Þá var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir við Hafravatnsveg skömmu fyrir klukkan eitt í nótt. Síðar kom í ljós að þarna var ekkert að óttast, en mannaferðirnar voru einungis ferðamenn í leit að norðurljósum fjarri frá ljósmengun borgarinnar.

Í miðbænum var einstaklingur handtekinn á níunda tímanum vegna gruns um fjársvik. Sá var í annarlegu ástandi og því vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að yfirheyra hann vegna málsins. Í miðbænum var einnig árásarmaður handtekinn eftir líkamsárás á fimmta tímanum í nótt og annar handtekinn eftir slagsmál fyrr um nóttina.

Í Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ þurfti lögregla að bregðast við vegna tveggja líkamsárása á þriggja klukkustunda tímabili. Þá þurfti einn að fá aðhlynningu frá sjúkraflutningamönnum eftir slagsmál skömmu fyrir miðnætti en önnur slagsmál voru svo tilkynnt í Mosfellsbæ skömmu eftir klukkan fjögur í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×