Bæjarráð Seltjarnarness neitaði að gangast í ábyrgð fyrir láni til Sorpu vegna 1,6 milljarða króna framúrkeyrslu. Önnur sveitarfélög sem eiga hlut í Sorpu hafa staðfest ábyrgðina en stjórn Sorpu hefur fengið harða gagnrýni á fundum.
Birkir Jón Jónsson, stjórnarformaður Sorpu, og Björn M. Halldórsson framkvæmdastjóri hafa mætt á bæjarráðsfundi sveitarfélaganna vegna málsins.
„Seltjarnarnes ákvað að svo stöddu að samþykkja ekki þennan lánapakka,“ segir Birkir Jón en Seltjarnarnes á tæp þrjú prósent í Sorpu. „Ég á fastlega von á því að fundur verði haldinn strax eftir helgi með eigendum félagsins til þess að fara yfir stöðu mála.“
Aðspurður um hvort einhver þurfi ekki að taka ábyrgð á stöðunni segir Birkir of snemmt að segja til um það. „Stjórn félagsins er búin að setja málið í ferli og formanni og varaformanni stjórnar falið að fá óháðan aðila til að taka út rekstur félagsins.“
Birkir segir að tillögur, byggðar á þessari úttekt, verði lagðar fram á næsta stjórnarfundi Sorpu, en hann mun fara fram í lok mánaðarins. „Við viljum varpa ljósi á hvað fór úrskeiðis í áætlanagerð og verkferlum félagsins. Það er ekkert fleira að segja um málið fyrr en úttektin liggur fyrir.“
Birkir mun funda með varaformanni í næstu viku varðandi úttektina. Hver mun sjá um úttektina liggur ekki fyrir að svo stöddu.
