Nýr samningur við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands bar helst í stefnuskrá ríkisstjórnar Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sem Elísabet drottning lýsti við þingsetningu í morgun. Stefnan er enn sett á að Bretland gangi úr sambandinu í lok þessa mánaðar.
Hefð er fyrir því að handhafi konungsvalds flytji nokkurs konar stefnuræðu forsætisráðherra við pomp og prakt við upphaf nýs þings. Elísabet drottning las þannig upp helstu stefnumál ríkisstjórnar Johnson þar sem farið var yfir fleiri en tuttugu þingmál, þar á meðal varðandi útgönguna úr Evrópusambandinu, í dag.
„Forgangsmál ríkisstjórnar minnar hefur alltaf verið að tryggja útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu 31. október,“ las drottningin upp úr ræðu sem ríkisstjórnin skrifaði fyrir hana. Ríkisstjórnin ætli að gera nýjan samning við Evrópusambandið sem byggi á „fríverslun og vinsamlegri samvinnu“.
Verkamannaflokkurinn gagnrýndi stefnuskrána og fullyrti að drottningin hefði verið notuð til að koma á framfæri kosningaloforðum Íhaldsflokks Johnson, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Gert er ráð fyrir að kosið verði til þings fyrr en síðar á Bretlandi.
„Það hefur aldrei verið eins mikill farsi og ríkisstjórn með meirihluta mínus 45 sæti og 100% taphrinu í neðri deildinni sem leggur fram þingmálaskrá sem hún veit að þetta þing getur ekki afgreitt,“ sagði Corbyn. Hann væri til í að samþykkja kosningar þegar búið væri að útiloka að Johnson drægi Bretland úr ESB án samnings.
Johnson fer fyrir minnihlutastjórn og tapaði öllum atkvæðagreiðslum í þinginu frá því að hann tók við embætti forsætisráðherra í júlí.
