„Það eru mjög margir krakkar sem vilja vera í minni hópum og finnst það þægilegra og ég sem nemandi, ég er lesblind og ég fékk svakalega mikinn stuðning hér í Korpu vegna þess að það voru færri nemendur og einhvern veginn meiri stuðningur,“ segir Hildur í samtali við Vísi. „Ég er hrædd um að þessir nemendur muni ekki til dæmis fá þann stuðning sem þeir eru að fá hér í skólanum.“
Umhugað um yngri systkini
Hún segir málið vera sér og samnemendum hennar afar ofarlega í huga og varla sé talað um annað í frímínútum. „Við höfum mjög miklar áhyggjur af þessu. Mörg okkar eiga yngri systkini sem eru í skólanum hérna og ég þekki eina sem að á mömmu sem að þorir ekki að segja syni sínum þetta vegna þess að hann á eftir að vera svo leiður og okkur finnst þetta svo sorglegt ef að þetta mun gerast,“ segir Hildur.Tillagan, sem felur í sér umfangsmiklar breytingar á skipulagi grunnskóla í norðanverðum Grafarvogi frá og með næsta skólaári, verður tekin fyrir á fundi borgarstjórnar á morgun. Skóla- og frístundaráð samþykkti tillöguna á fundi sínum í síðustu viku og borgarráð sömuleiðis en áformin hafa mætt verulegri andstöðu.
Sjá einnig: Samþykkt að loka Kelduskóla Korpu
Auk þess sem Kelduskóla Korpu verður lokað samkvæmt tillögunni verður Kelduskóla Vík breytt í sérstakan unglingaskóla með áherslu á nýsköpun og mun fá nafnið Víkurskóli. Hildur segir takmarkaðan áhuga meðal nemenda fyrir þessum breytingum. „Það er ekkert svakalega mikill spenningur nefnilega. Ég hélt að það yrði kannski spenna fyrir því hjá unglingunum að hafa einn stóran unglingaskóla en það virðist ekki vera. Okkur finnst bara svo þægilegt og gaman að geta talað við litlu krakkanna og þau leita mikið til eldri nemenda. Það er mikil og góð samvera þarna á milli,“ útskýrir Hildur.

Það sama hafi verið uppi á teningnum í fyrra og því hafi hún markvisst skráð niður hjá sér hversu oft það hafi komið fyrir í vetur að rútan var sein. Þetta geti gert það af verkum að nemendur mæti seint í tíma. „Það er leiðinlegt að missa úr tíma og þá þarf maður að vinna upp.“ Í tvö skipti í vetur hafi rútan verið 40 mínútum of sein. Þá séu gönguleiðir milli hverfanna alls ekki ásættanlegar að mati Hildar og margir stytti sér leið yfir gólfvöllinn, hvernig sem viðrar. „Það er alltaf verið að tala um að það mun bæta gönguleiðirnar, og líka við seinustu sameiningu þá var sagt að það ætti að bæta en þær hafa ekkert lagast.“