Í Kompás sem birtur var á Vísi í dag gagnrýnir 17 ára stúlka barnaverndarnefnd Seltjarnarness harðlega. Hún segir barnavernd, grunnskólann og í raun allt samfélagið á Nesinu, hafa brugðist sér með því að hafa litið framhjá og ekki gert viðeigandi ráðstafanir vegna vanrækslu og ofbeldis sem hún hafi orðið fyrir af hendi móður sinnar sem glímir við geð- og áfengisvanda.
Sjá einnig: https://www.visir.is/g/2019191129332/lokud-a-heimilinu-med-gedveikri-modur
Gögn í máli stúlkunnar sýna að nefndin hafa verið meðvituð um aðstæður stúlkunnar. Lögregla hafi til að mynda verið kölluð til á heimili hennar í nokkur skipti vegna heimilisofbeldis.
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, segir málið dapurlegt. „Um leið og maður er auðvitað sorgmæddur þegar svona fréttir koma þá er erfitt að tjá sig efnislega um einstaka mál. En við erum að gera breytingar á kerfinu því við erum að sjá í alltof miklum mæli að börn lendi þarna á milli kerfa,“ segir Ásmundur og bætir við að það gerist allt of oft að kerfin tali ekki saman.
„Lögreglan, heilbrigðiskerfið, skólanirnir og félagsþjónustan. Það erum við líka að tryggja núna og er hluti af þessari breytingu,“ segir Ásmundur. Vinna við breytingu á barnaverndarlöggjöfinni sé að hefjast og til standi að leggja fram frumvarp á vorþingi.
„Þetta er með flóknari málum sem hægt er að taka ákvarðanir um og þá er kannski frekar sérstakt að það séu pólitískt skipaðir einstaklingar sem eru í fullri vinnu annars staðar sem taki þyngstu ákvarðanirnar í barnaverndarmálum,“ segir Heiða Björg og tekur Ásmundur í sama streng.
„Við erum að skoða breytingar á þessu líka varðandi stærð barnaverndarnefndanna og líka hvernig þær eru samsettar,“ segir Ásmundur. Þá þurfi að tryggja aðkomu fagfólks í barnaverndarnefndirnar.
Ljóst er af gögnunum í máli stúlkunnar að móðir hennar hafi átt við alvarleg veikidi að stríða; Geðhvarfa- og áfengissýki og hefur hún farið í geðrof og haft ranghugmyndir. Ásmundur segir að styðja þurfi börn sem búa hjá foreldri með geðsjúkdóm.
„Það þarf að gerast. Það er að auka þjónustu við öll börn sem búa við slíkar aðstæður,“ segir Ásmundur.