Í tilurð Barnasáttmálans er kveðið á um að mannréttindi eigi að tryggja öllum mönnum rétt til þess að njóta mannlegrar reisnar. Sáttmálinn markaði mikil tímamót í baráttunni fyrir réttindum barna og felur hann í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi, óháð réttindum fullorðinna.

30 ár frá samþykkt Barnasáttmálans en aðeins sex ár frá því hann var lögfestur hér á landi
Barnasáttmálinn var tilbúinn til undirritunar og fullgildingar hjá Sameinuðu þjóðunum þennan dag árið 1989. Á Íslandi var barnasáttmálinn fullgildur árið 1992 en aðeins eru sex ár síðan hann var lögfestur.Í tilefni afmælis sáttmálans var efnt til hátíðahalda víða um land þar sem tímamótunum var fagnað.

Börn fóru í kröfugöngu
Í Grafarvogi, miðborginni og í Vesturbæ fóru börn í réttindagöngu og í Vesturbæ Reykjavíkur hlutu skólar viðurkenningu Unicef sem réttindaskólar og réttindafrístund, þeir fyrstu á Íslandi.Í afmælisdagskránni í Kópavogi er áhersla lögð á umhverfis- og loftslagsmál, frið, réttindi og þátttöku barna í samfélaginu.
Vitið þið hvað stendur í barnasáttmálanum sem þið eigið að hafa rétt á?
„Tjá sig, bara fá menntun og að við eigum að fá að segja okkar skoðun,“ sögðu Hulda Sigrún og Dunja Sól í samtali við fréttastofu.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar segir Barnasáttmálann mikilvægan og að áríðandi sé að börn fá að koma að ákvörðunum til dæmis í stjórnkerfinu.
„Börn þurfa að njóta virðingar, réttlætis og jafnræðis. Við þurfum að virða lýðræðið gagnvart börnunum. Fá þau til þess að taka þátt á ákvörðunum með okkur, þannig að í rauninni held ég að hann hafi allt til að bera sem getur sagt að hann sé frábær,“ segir Ármann.