Yfirvöld í Singapúr hafa gert út ferfætlinga til að tryggja það að fólk haldi fjarlægð sín á milli í almenningsgarði þar í landi.
Erlendir fjölmiðlar hafa síðustu daga sagt frá „vélhundinum“ Spot, sem þýða mætti sem Depill á íslensku, sem fer nú um í Bishan-Ang Mo Kio, einum af stærstu almenningsgörðum ríkisins, þar sem hann sendir út skilaboð til gesta og gangandi.
Depill fer um garðinn og endurtekur í sífellu skilaboð þar sem hann minnir fólk á að fara eftir tilmælum sem ætluð eru til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.
Depill er sömuleiðis búinn myndavélum sem nýtist við að áætla fjölda gesta í garðinum. Hann verður til reynslu í tvær vikur þar sem hann mun fara um þriggja kílómetra leið í garðinum og þá í fylgd starfsmann garðsins. Verði reynslan góð er ekki útilokað fleiri vélhundar verði gerðir út af örkinni og þá í öðrum almenningsgörðum í landinu.
Roaming 'robodog' politely asks Singapore park-goers to keep one meter apart https://t.co/QkDNr4pNiV pic.twitter.com/obqoWdTizj
— Reuters (@Reuters) May 9, 2020